Hvern lætur þú hugsa fyrir þig? Á ég að hugsa fyrir þig?

Þrýstihóparnir hafa nú fyrir alvöru blandað sér í kosningabaráttuna fyrir stjórnlagaþingið. Draga fram afstöðu frambjóðenda til einstakra mála og leggja á það ofurkapp við sitt fólk að kjósa nú í samræmi við þessa þröngu sérhagsmuni. Þrýstihóparnir vilja hugsa fyrir þig, taka af þér ómakið J

Það eiga líklega eftir að koma fram fleiri sérhagsmunagæsluhópar, hópar sem einskis svífast til að koma sínu fram. Fyrirferðamestu þrýstihóparnir núna einblína á kvótakerfið, ESB og þjóðkirkjuna. Hér koma hugleiðingar mínar í tengslum við þessi þrjú helstu viðfangsefni þeirra sem vilja draga athyglina frá því sem stjórnlagaþingið snýst um.

 

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til aðildar að ESB?

Aðild að ESB er ekki verkefni stjórnlagaþings. En það er verkefni stjórnlagaþings að setja í  stjórnarskrána ákvæði um að samningar á borð við hugsanlegan aðildarsamning verði ekki samþykktir nema þeir hljóti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert með ESB að gera. Ef Íslendingar einhvern tíma ákveða að ganga í ESB er það verkefni þess tíma að gera breytingar á löggjöf landsins ef það verður nauðsynlegt. Stjórnarskráin meðtalin. Það er verkefni stjórnlagaþings núna að búa svo um hnútana að stjórnarskrá verði ekki breytt nema með samþykki kjósenda, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til þjóðkirkjunnar? Í stjórnar-skránni er lagagrein um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Í þessari sömu lagagrein segir líka: „Breyta má þessu með lögum“. Þetta þýðir einfaldlega að það þarf ekki að breyta stjórnarskrá til að breyta stöðu þjóðkirkjunnar, málið má afgreiða á Alþingi með venjulegri lagasetningu. Þess vegna spyr ég: Er þá ástæða til að láta það draga athygli og taka tíma frá málum sem aðeins verða leyst í stjórnarskrá? Eins og t.d. ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, um verk- og valdsvið forseta, um skarpari þrískiptingu valdsins svo eitthvað sé nefnt.

Mínar hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur gera minnihluta þingmanna eða tilteknum fjölda kjósenda kleift að senda mál til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðkirkjan er ágætt dæmi um mál sem þannig mætti leggja í dóm kjósenda, milliliðalaust og án þess að flækja því í önnur mál.

 

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til kvótakerfisins?

Kvótakerfið er ekki verkefni stjórnlagaþings, ekki frekar en t.d. einstök virkjanaleyfi. Ég styð eindregið að í stjórnarskrá verði kveðið skýrt á um að allar okkar auðlindir verði óskipt þjóðareign. Í anda þjóðfundar kæmu svo til viðbótar ákvæði um „sjálfbæra nýtingu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“. Jafnvel þessi „einfalda“ lagasetning er ekki einföld. Ég veit hvað ég hugsa þegar ég heyri orðið auðlind. Þú veist líka hvað þú hugsar þegar þú heyrir orðið auðlind, en það er alls ekki víst að við leggjum sömu merkingu í orðið. Það er því meðal verkefna stjórnlagaþings að skilgreina hugtakið auðlind. Stjórnlagaþingið þarf líka að skilgreina hugtakið þjóðareign, ég nota stundum orðið almannaeign.

Stjórnarskráin er grunnur annarrar löggjafar og segir til um stjórnskipan landsins. Hvorki virkjanaleyfi né úthlutun veiðiheimilda eiga að vera í stjórnarskrá, en í stjórnarskránni þurfa að vera skýrar forsendur fyrir því hvernig löggjafi og framkvæmdavald skulu haga lögum og reglum.

 

Ég vil ekki hugsa fyrir þig!

En ég vil vinna fyrir þig og með þér. Vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar betri, tækifæri til þess gefst á stjórnlagaþinginu á næsta ári.

Viljir þú heilindi og víðsýni og að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll, þá er ein leiðin að kjósa mig – setja 2974 efst á blað!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Innilega sammála þér um að hér þarf fólk að fara að skerpa sig. Mér finnst þú þó einfalda málið um of á andhverfan væng. Ég hef sterkar skoðanir á þessu og vil vísa í svar mitt á öðru bloggi hvað þetta varðar. Væri gaman að fá þitt mat á þeim.

http://valdimarjohannesson.blog.is/blog/valdimarjohannesson/entry/1116245/

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2010 kl. 15:02

2 Smámynd: Eiríkur Mörk Valsson

Þakka þér fyrir innlitið, Jón Steinar. Erum við ekki nokkuð sammála, svona í grunninn? Sammála um að - annars þörf - umræða um þjóðkirkjuna, ESB og kvótann megi ekki taka yfir þegar rætt er um verkefni stjórnlagaþings. Það er víst nokkuð til í því að ég hafi einfaldað málið í þessum pistli, valdi það frekar en að fara dýpra og lengja þá mál mitt talsvert. Reyni að finna tíma til að skera þetta upp og birta ítarlegri pistla um hvert efni fyrir sig.

Hvað þjóðkirkjuna varðar er ekki langt á milli okkar, en þú ert óþolinmóðari en ég :-) Góð ábendingin þín um að stjórnlagaþing "gefi út álit" um þjóðkirkjukaflann, sem t.d. gæti innihaldið áskorun til Alþingis um að taka málið fyrir og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Líka þörf ámmining að vel þarf að ígrunda hugsanleg ákvæði um þjóðareign á auðlindum, annars vegar að það sé á hreinu hvað við er átt og hins vegar að gera sér grein fyrir afleiðingum af slíkri gerð. Hér gengur ekki hnífurinn á milli okkar, sýnist mér.

Eiríkur Mörk Valsson, 14.11.2010 kl. 18:50

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það sýnist mér, þótt ég hafi tilhneigingu til að hafa langt mál um hlutina. Þjóðkirkjumálið á samkvæmt hlutarins eðli að vera kosningamál, en hingað til hafa menn veigrað sér við að halda á lofti svo tvíeggjuðu sverði í kosningabaráttu. Það væri því ágætt að fá markmiðið undirstrikað úr annarri átt.

Við erum allavega sammála um hornsteininn, sem er vald fólksins af fólkinu, fyrir fólkið. (We the people...og allt það)

Hvað fannst þér um ábendingu mína um þennan Akkílesarhæl varðandi örlagarík málefni, sem ekki koma fram í kosningabaráttu en koma til eftirá  án þess að fólk fái um þau ráðið.  Í þingkosningum láta menn oft hjá líða að nefna hulin markmið og kaupa sér velvild með dekurmálum eins og lækkun skatta og allskyns fríðindum. Mál, sem síðan eru gleymd og grafin , svikin og skrumskæld um leið og stólarnir verma kalda rassa. Finnst þér ekki umhugsunarvert að saetja varnagla þar á?

Segjum bara sem svo að eitthvað óvænt komi uppá , sem menn bara gátu ekki séð fyrir eins og stuðningur við stríðsrekstur.  Ætti ekki slíkt að vera þjóðarinnar að úrskurða um?

Nú síðast þá kom þetta ekki einusinni fyrir þingið, hvað þá forseta heldur voru tveir pótentátar sem tóku af okkur ómakið. (Raunar finnst mér það svo mikil svífyrða að þeir ættu að vera í lngtímavistun á Kvíabryggju, ef allt væri eðlilegt)

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2010 kl. 20:12

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annað er vert umhugsunnar í samhengi 6. kaflans og fleiri greina sem kveða á um að breytingar séu alfarið í höndum löggjafans (sem er á skjön við eðli og tilgang stjórnarskrár að mínu mati), hvort slíkar greinar eigi yfirleitt heima í stjórnarskrá. Þetta er bundið í lögum. Afhverju einnig í stjórnarskrá? Í stjórnarskrá eru hornsteinar sfélagsins og prinsipp stjórnsýslunnar sett.  Þessi ívilnun til þessarar "sjáfstæðu" stofnunnar er í algerum kontrast við innihaldið og á ekki við þarna ferkar en lög um stuðning við þróunarhjálp, forvarnir eða líknarmál, sem dæmi.

Þetta er eins og ég segi: gersamlega absúrd í þessu samhengi, hvernig sem litið er á. 

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2010 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eiríkur Mörk Valsson

Höfundur

Eiríkur Mörk Valsson
Eiríkur Mörk Valsson

Bliki með áhuga á þjóðmálum, stórum sem smáum.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._01_1056788
  • ...emv_01
  • ...m81
  • ...m31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband