Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

Það er þörf fyrir breytingar á stjórnarskránni, verkefni sem lengi hefur legið fyrir. Það er ekki að ástæðulausu að Alþingi hefur nokkrum sinnum lagt mikla vinnu í breytingar á stjórnarskránni, þó menn hafi svo aldrei lokið verkinu.

  Hverju þarf helst að breyta?

Ég legg áherslu á aukið lýðræði, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Minnihluti þingmanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Tiltekinn fjöldi kjósenda þarf líka að geta sent mál í þjóðaratkvæði.

Þjóðin á að vera stjórnarskrárgjafi. Með núverandi fyrirkomulagi standa Alþingismenn frammi fyrir freistnivanda varðandi stjórnarskrána. Alþingi fær völd sín samkvæmt stjórnarskrá og hefur á sama tíma vald yfir stjórnarskránni. Þingmenn eru sem sagt bæði yfir og undir stjórnarskránni, það býður upp á verstu gerð af freistnivanda.

Við þurfum að setja skýrar grundvallarreglur og að skerpa skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. T.d. þannig að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi og tillöguréttur þeirra og málfrelsi á Alþingi verði takmarkað. Verulega þarf  að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess. Bráðnausynlegt er og að endurskoða og skilgreina hlutverk forseta lýðveldisins.

Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og hlutverkið þarf að skilgreina. Sjálfstæðið mætti meðal annars auka með því að breyta fyrirkomulagi á skipan dómara. Hæstaréttardómarar yrðu t.d. kosnir af Alþingi með auknum meirihluta.

Ég held það verði tiltölulega auðvelt fyrir stjórnlagaþingið að ná lendingu í því sem ég nú hef nefnt.

En umhverfismálin og auðlindirnar geta orðið erfiðari, er ég hræddur um. Ég styð að í stjórnarskrá verði ákvæði um  auðlindirnar í þjóðareign. Til að það sé mögulegt þarf fyrst að ná samstöðu um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign, það verður ekki auðvelt. En það er hægt – ef viljinn er fyrir hendi.

Í sama potti eru umhverfis- og náttúruvernd, þættir sem okkur ber að hafa með í auðlindakaflanum.

Núverandi stjórnarskrá er lagabálkur og þannig verður það áfram. En ég vil hafa inngang að stjórnarskránni, eins konar yfirlýsingu þar sem andi stjórnarskrárinnar er settur fram með skýrum hætti og grunngildum er haldið til haga.

Til að orða þennan inngang vil ég fá fólk úr hópi okkar bestu rithöfunda og skálda. Jafnvel að fá það sama fólk til að hafa hönd í bagga með allri textagerð.

Stjórnarskráin á að vera aðgengilegt plagg á góðri íslensku, máli sem við skiljum öll og gefur lögspekingum landsins sem fæsta möguleika til að túlka út og suður.

Í stjórnarskránni á auðvitað líka að vera ákvæði um íslensku sem þjóðtungu okkar og eina opinbera tungumálið.

 Af hverju gefur þú kost á þér?

Vegna þess að ég tel mig eiga erindi á stjórnlagaþingið!

Ég hef af áhuga fylgst með þjóðmálum í áratugi. Ég hef búið á höfuðborgarsvæðinu, úti á landi og í útlöndum og hef þess vegna skoðað samfélagið frá ýmsum sjónarhornum.

Þegar ég ákvað að gefa kost á mér vildi ég vera viss um að almenningur - venjulegt fólk - ætti a.m.k. einn fulltrúa í framboði.

Niðurstöður skoðanakönnunar sem birtar voru um daginn sýna að áherslurnar sem ég lagði af stað með - og held mig við - ríma vel við afstöðu almennings.

Ég gef kost á mér sem fulltrúi fólksins, þeirra sem vilja að almenningur geti haft áhrif og þannig í sífellu minnt á hvaðan völdin koma.

 

(Pistillinn er að stofni það sem ég sagði í kynningu RÚV)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eiríkur Mörk Valsson

Höfundur

Eiríkur Mörk Valsson
Eiríkur Mörk Valsson

Bliki með áhuga á þjóðmálum, stórum sem smáum.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ..._01_1056788
  • ...emv_01
  • ...m81
  • ...m31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband