Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vinnubrögð sérfræðinga "ekki hundi bjóðandi"

Jóhanna Sigurðardóttir þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að hafa brotið jafnréttislögin. Gæti t.d. sótt í smiðju Svandísar og sagt sig fylgja pólitískri sannfæringu. Það réttlætir lögbrot ráðherra, er það ekki?

Þá á hún stuðning vísan langt inn í raðir helsta baráttufólks fyrir jafnrétti kynjanna. Ein úr þeim hópi, Þórhildur Þorleifsdóttir, telur t.d. að „lögfræðingarnir“ í kærunefnd (þeir sem kváðu upp úrskurðinn) viti nú ekki endilega mikið um hver sé hæfur í hvert starf. Þessi sami baráttujaxl segir líka af sama tilefni að vinnubrögð sérfræðinga í mannaráðningum séu ekki „hundi bjóðandi“. Þar segist hún tala af eigin reynslu. Niðurstaða hennar: Varla ástæða til að skammast mikið út í embættisfærslu Jóhönnu. Er hver einasta glóð slokknuð í Þórhildi?

Get ekki skilið við þetta mál án þess að nefna ábyrgð. Í vörn forsætisráðherra í málinu kemur fram að embættismenn hafi tekið ákvörðunina. En það er ekki nefnt að þessir embættismenn starfa fyrir hönd ráðherrans – sem í þessu máli eins og öðrum ber hina pólitísku ábyrgð! En „pólitísk ábyrgð“ er víst næsta merkingarlaus frasi - á Íslandi! Er ekki kominn tími til að breyta? „Nýja Ísland – hvar ert þú?“


Nýja Ísland! Hvert fórst þú?

Það dynja á manni í sífellu fréttir af framferði fólks fyrir hrun. Það er orðið harla fátt sem kemur á óvart um siðleysi þeirra tíma. Lög og reglur úrelt þing, aðeins aumingjum allskonar ætlað að lúta regluverki landsins.

Nú eru aðrir tímar, er það ekki? Nýja Ísland að rísa úr sæ, er það ekki? Búið að henda út öllum sem illa fóru með og líka hinum sem létu vitfirringuna viðgangast, er það ekki? Betri tíð með blóm í haga og vönduðum vinnubrögðum í hvívetna. Betri og skýrari lagasetning og hvergi hvikað frá settum reglum. Nýja Ísland, er það ekki?

 

Hæstiréttur dæmdi gengistryggð lán ólögleg. Í kjölfarið samdi ríkisstjórnin lagafrumvarp um meðferð þessara lána og Alþingi gerði frumvarpið að lögum. Nú hefur Hæstiréttur dæmt þessi lög ónýt. „Vönduð vinnubrögð!“

Framkvæmdavaldið klúðraði framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. „Vönduð vinnubrögð!“

Fjármálaráðherra ákvað að breyta grundvelli fyrir álagningu bifreiðagjalda. Þegar framkvæma skyldi hið nýja lagaboð kom í ljós að þessi grundvöllur var langt í frá traustur, álagningin í mörgum tilvikum þess vegna byggð á ágiskunum. „Vönduð vinnubrögð!“

Umhverfisráðherra lét geðþótta ráða gerðum sínum. Hæstiréttur úrskurðaði að ráðherra hefði brotið lög með þessari framgöngu sinni. „Vönduð vinnubrögð!“

 

Forsætisráðherra telur ekkert athugavert við lögbrotið. Enda samræmist það stefnu ríkisstjórnarinnar að brjóta lög til að ná settum markmiðum!

Fjármálaráðherra fagnar lögbrotinu. Segir þessa gjörð umhverfisráðherra bera henni gott vitni.

 

Ekki hvarflar að umhverfisráðherra að segja af sér þrátt fyrir vera nú dæmdur sakamaður. Sér til varnar nefndi ráðherra m.a. að  hún hefði byggt hina ólöglegu ákvörðun sína á því að ekki hafi verið í lögum sérstök heimild til sveitarfélagsins að standa að málum eins og gert var. Allt bannað sem ekki er sérstaklega leyft er sem sagt stefna ríkisstjórnarinnar! Mikið verður lífið nú auðveldara þegar maður fær á blaði upptalningu á því sem leyfilegt er. Efst á listanum verður væntanlega: „Leyfilegt að brjóta landslög ef fyrir því er pólitísk sannfæring“. Nýja Ísland - í boði ríkisstjórnar alþýðunnar!

 

Lög sem ekki standast skoðun, lagaframkvæmd sem ekki stenst skoðun og ráðherra  með Hæstaréttardóm á herðunum um skýlaust lögbrot.

Erum við á réttri leið? Ég held ekki!

Lögbrjótar í ráðuneyti!

Spekingarnir í Hæstarétti ógiltu kosningar til stjórnlagaþings. Fyrir okkur sem viljum að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá eru ekki margir kostir í stöðunni.

Að mínu mati er eina leiðin sú að kjósa aftur. Er nokkur ástæða til að nefna að menn þurfi að vanda sig við lagasetningu og framkvæmd J

 

Mér finnst Hæstiréttur byggja niðurstöðu sína á óttalegum tittlingaskít. En kærurnar gáfu líklega ekki tilefni til annars.

En það fer ekki á milli mála að framkvæmd kosninganna var kolólögleg. Í lögum um stjórnlagaþing eru ákvæði um rafræna kjörskrá. Framkvæmdavaldið ákvað að hunsa þessi ákvæði og halda sig við kjörskrá á pappír. Þessi ákvæði laganna eru skýr, ætti ekki að þurfa utanaðkomandi kæranda til að benda á þetta augljósa lögbrot framkvæmdavaldsins.

Þó ekki hafi verið kært vegna þessara lögbrota, er þá ekki rétt að kanna hverjir tóku ákvörðun um að fara ekki að lögum og gera svo viðeigandi ráðstafanir?

 

Hér eru nokkrar þeirra um lagagreina sem ekki þótti ástæða til að fara eftir:

5. gr. Kosningarréttur og kjörskrár.
Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þegar boðað hefur verið til kosninga til stjórnlagaþings skal Þjóðskrá Íslands semja kjörskrá og setja á rafrænt form til að nota við atkvæðagreiðsluna.

11. gr. Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.
Kjósandi getur greitt atkvæði á kjörfundi hvar sem er á landinu enda verði sýnilegt í rafrænu kjörskránni á öllum kjörstöðum að hann hafi neytt atkvæðisréttar síns. Um kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Sveitarstjórnir leggja til tölvubúnað í hverri kjördeild til að tryggja aðgang að rafrænu kjörskránni.

12. gr. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
Kosningu utan kjörfundar skal hefja sautján dögum fyrir kjördag. Þar sem atkvæðagreiðsla fer fram skal kjörstjóri hafa aðgang að sérstakri skrá, utankjörfundarskrá, sem skal vera á rafrænu formi og sækir gögn í rafrænu kjörskrána. Í rafrænu kjörskránni verður sýnilegt að greitt hafi verið atkvæði utan kjörfundar, hvar það var gert og hvenær. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sömu kjörstjórum og við alþingiskosningar. Henni skal lokið í síðasta lagi kl. 12 daginn fyrir kjördag. Kjósanda, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, er óheimilt að greiða atkvæði á kjörfundi.

 ---

Ég vil að stjórnlagaþing verði haldið og ég vil nýjar kosningar til þess. En þetta er ekki tilkynning um framboð J


Hvað vill hann þessi?

Á morgun göngum við til kosninga til Stjórnlagaþings, sem er einstakt í sögu þjóðarinnar. Mikilvægt er að á slíkt þing veljist sem breiðastur hópur fulltrúa, sem endurspeglar þau mismunandi viðhorf, sem uppi eru í þjóðfélagi okkar. Fólk með fjölbreytilegan bakgrunn, sem sér málin frá mismunandi sjónarhornum og er tilbúið til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu. Því meiri einhugur sem næst meðal fulltrúanna, því meiri líkur eru á að Alþingi samþykki nýja stjórnarskrá Stjórnlagaþingsins.

 

Ástæða þess að ég býð fram krafta mína til þessa þjóðþrifamáls, er einfaldlega sú að ég tel mig eiga fullt erindi á stjórnlagaþingið! Ég hef fylgst með þjóðmálum af miklum áhuga áratugum saman og ekki minnkaði sá áhugi minn við að verða þeirrar einstæðu gæfu aðnjótandi að sitja Þjóðfundinn 2009.

 

Ég bý á höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi, en hef búið nærri helming ævi minnar annars vegar úti á landi, í Hveragerði og á Ísafirði, hins vegar erlendis, í Danmörku. Búseta mín hefur þannig gert mér kleift að sjá þjóðmálin frá mismunandi sjónarhornum, en sú dýrmæta reynsla hefur eðlilega veitt mér víðtækari skilning á mismunandi viðhorfum.

 

Niðurstöður skoðanakönnunar um daginn sýna að áherslurnar sem ég lagði af stað með – og held mig við – eiga mikinn og góðan samhljóm með afstöðu almennings. Ég gef kost á mér sem fulltrúi fólksins, meginþorra þjóðarinnar, sem finnst sjálfsagt að almenningur hafi úrslitaáhrif á stjórnarfar landsins. Mikilsvert er að stjórnvöld séu sífellt minnt á af hverjum þau þiggja völdin sín.

 

Ég hef áður gert grein fyrir helstu áherslumálum mínum við endurritun stjórnarskrár Íslands og stikla því á stóru nú. Ég legg áherslu á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, þannig að tiltekinn fjöldi kjósenda , svo og minnihluti þingmanna, geti skotið málum til þjóðarinnar. Þjóðin skal vera stjórnarskrárgjafi, en Alþingi starfa í umboði hennar og vera sér ávallt meðvitað um þá skipan mála. Skerpa þarf skilin milli löggjafans og framkvæmdavaldsins, m.a. þannig að ráðherrar eigi ekki jafnframt sæti á Alþingi. Verulega þarf  að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdavaldinu.

Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og skilgreina hlutverk þess betur en nú er raunin, m.a. með gegnsærri og lýðræðislegri vinnubrögðum við skipan dómara. Þá eru ótalin umhverfismálin og auðlindirnar. Ég styð eindregið ákvæði um þjóðareign á auðlindunum okkar í nýrri stjórnarskrá. Fyrsta skrefið í þá átt er að ná samstöðu um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign. Örðugt getur það orðið, en vitaskuld mögulegt – ef viljinn er fyrir hendi.

Þann vilja hef ég! Viljann til að vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar verulega betri; nokkuð sem stjórnlagaþingið veitir okkur einstakt tækifæri til.

Ég vil vinna fyrir þig! Vinna af heilindum og víðsýni til að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll um langa framtíð. Ein leiðin að því marki er að kjósa mig – setja 2974 efst á blað!


Þjóðaratkvæðagreiðsla í júní 2012

Stjórnlagaþingið getur fengið fjóra mánuði til að ná niðurstöðu og það er nokkuð góður tími – ef menn á annað borð ætla sér að komast að niðurstöðu.

Í lögunum um stjórnlagaþing er rík áhersla lögð á annars vegar að þingið leiti eftir tillögum frá almenningi og hins vegar að upplýsingar um störf þingsins verði aðgengilegar fyrir almenning.

Þess vegna tel ég að þingið eigi fyrst að starfa í tvo mánuði og gera síðan hlé (í þrjá til sex mánuði?). Það hlé verði notað til að kynna vel afraksturinn af starfinu fram til þess tíma og gefa almenningi tækifæri til að kynna sér málið og gefa álit til kynna. Þetta hlé geta fulltrúar á stjórnlagaþingi líka notað til að vinna áfram að málinu, þó með óformlegum hætti sé. T.d. reynt að jafna ágreining sem vera kann og ræða málin áfram, bæði í sinn hóp og útávið. Síðan komi stjórnlagaþing saman aftur og ljúki verkinu á tveimur mánuðum, skili af sér frumvarpi að nýjum stjórnskipunarlögum fyrir lýðveldið Ísland.

Þetta frumvarp þarf að kynna vel og efna svo til þjóðaratkvæðagreiðslu um það, kanna hug þjóðarinnar til afurðar stjórnarlagaþingsins. Í þessari atkvæðagreiðslu ættum við líklega að kjósa um einstaka kafla eða hluta frumvarpsins, ekki frumvarpið í heild. Með því móti fæst betri mæling á vilja kjósenda.

Í stuttu máli: Þingið starfi í tvo mánuði, síðan nokkurra mánaða hlé og svo aftur tveggja mánaða þingstörf. Þá fái þjóðin tvo til þrjá mánuði til að melta og meta niðurstöðu þingsins og greiði svo atkvæði. Að lokum kemur frumvarpið til kasta Alþingis, aðeins Alþingi getur breytt stjórnarskránni eins og málum er háttað núna.

 

Með sameiginlegri niðurstöðu stjórnlagaþings eru meiri líkur á að frumvarpið njóti stuðnings þjóðarinnar og þá verður erfitt fyrir Alþingi annað en að taka málið til meðferðar og samþykkja breytingar á stjórnarskránni.


Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?

Það er þörf fyrir breytingar á stjórnarskránni, verkefni sem lengi hefur legið fyrir. Það er ekki að ástæðulausu að Alþingi hefur nokkrum sinnum lagt mikla vinnu í breytingar á stjórnarskránni, þó menn hafi svo aldrei lokið verkinu.

  Hverju þarf helst að breyta?

Ég legg áherslu á aukið lýðræði, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Minnihluti þingmanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Tiltekinn fjöldi kjósenda þarf líka að geta sent mál í þjóðaratkvæði.

Þjóðin á að vera stjórnarskrárgjafi. Með núverandi fyrirkomulagi standa Alþingismenn frammi fyrir freistnivanda varðandi stjórnarskrána. Alþingi fær völd sín samkvæmt stjórnarskrá og hefur á sama tíma vald yfir stjórnarskránni. Þingmenn eru sem sagt bæði yfir og undir stjórnarskránni, það býður upp á verstu gerð af freistnivanda.

Við þurfum að setja skýrar grundvallarreglur og að skerpa skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. T.d. þannig að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi og tillöguréttur þeirra og málfrelsi á Alþingi verði takmarkað. Verulega þarf  að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess. Bráðnausynlegt er og að endurskoða og skilgreina hlutverk forseta lýðveldisins.

Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og hlutverkið þarf að skilgreina. Sjálfstæðið mætti meðal annars auka með því að breyta fyrirkomulagi á skipan dómara. Hæstaréttardómarar yrðu t.d. kosnir af Alþingi með auknum meirihluta.

Ég held það verði tiltölulega auðvelt fyrir stjórnlagaþingið að ná lendingu í því sem ég nú hef nefnt.

En umhverfismálin og auðlindirnar geta orðið erfiðari, er ég hræddur um. Ég styð að í stjórnarskrá verði ákvæði um  auðlindirnar í þjóðareign. Til að það sé mögulegt þarf fyrst að ná samstöðu um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign, það verður ekki auðvelt. En það er hægt – ef viljinn er fyrir hendi.

Í sama potti eru umhverfis- og náttúruvernd, þættir sem okkur ber að hafa með í auðlindakaflanum.

Núverandi stjórnarskrá er lagabálkur og þannig verður það áfram. En ég vil hafa inngang að stjórnarskránni, eins konar yfirlýsingu þar sem andi stjórnarskrárinnar er settur fram með skýrum hætti og grunngildum er haldið til haga.

Til að orða þennan inngang vil ég fá fólk úr hópi okkar bestu rithöfunda og skálda. Jafnvel að fá það sama fólk til að hafa hönd í bagga með allri textagerð.

Stjórnarskráin á að vera aðgengilegt plagg á góðri íslensku, máli sem við skiljum öll og gefur lögspekingum landsins sem fæsta möguleika til að túlka út og suður.

Í stjórnarskránni á auðvitað líka að vera ákvæði um íslensku sem þjóðtungu okkar og eina opinbera tungumálið.

 Af hverju gefur þú kost á þér?

Vegna þess að ég tel mig eiga erindi á stjórnlagaþingið!

Ég hef af áhuga fylgst með þjóðmálum í áratugi. Ég hef búið á höfuðborgarsvæðinu, úti á landi og í útlöndum og hef þess vegna skoðað samfélagið frá ýmsum sjónarhornum.

Þegar ég ákvað að gefa kost á mér vildi ég vera viss um að almenningur - venjulegt fólk - ætti a.m.k. einn fulltrúa í framboði.

Niðurstöður skoðanakönnunar sem birtar voru um daginn sýna að áherslurnar sem ég lagði af stað með - og held mig við - ríma vel við afstöðu almennings.

Ég gef kost á mér sem fulltrúi fólksins, þeirra sem vilja að almenningur geti haft áhrif og þannig í sífellu minnt á hvaðan völdin koma.

 

(Pistillinn er að stofni það sem ég sagði í kynningu RÚV)


Hvern lætur þú hugsa fyrir þig? Á ég að hugsa fyrir þig?

Þrýstihóparnir hafa nú fyrir alvöru blandað sér í kosningabaráttuna fyrir stjórnlagaþingið. Draga fram afstöðu frambjóðenda til einstakra mála og leggja á það ofurkapp við sitt fólk að kjósa nú í samræmi við þessa þröngu sérhagsmuni. Þrýstihóparnir vilja hugsa fyrir þig, taka af þér ómakið J

Það eiga líklega eftir að koma fram fleiri sérhagsmunagæsluhópar, hópar sem einskis svífast til að koma sínu fram. Fyrirferðamestu þrýstihóparnir núna einblína á kvótakerfið, ESB og þjóðkirkjuna. Hér koma hugleiðingar mínar í tengslum við þessi þrjú helstu viðfangsefni þeirra sem vilja draga athyglina frá því sem stjórnlagaþingið snýst um.

 

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til aðildar að ESB?

Aðild að ESB er ekki verkefni stjórnlagaþings. En það er verkefni stjórnlagaþings að setja í  stjórnarskrána ákvæði um að samningar á borð við hugsanlegan aðildarsamning verði ekki samþykktir nema þeir hljóti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert með ESB að gera. Ef Íslendingar einhvern tíma ákveða að ganga í ESB er það verkefni þess tíma að gera breytingar á löggjöf landsins ef það verður nauðsynlegt. Stjórnarskráin meðtalin. Það er verkefni stjórnlagaþings núna að búa svo um hnútana að stjórnarskrá verði ekki breytt nema með samþykki kjósenda, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til þjóðkirkjunnar? Í stjórnar-skránni er lagagrein um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Í þessari sömu lagagrein segir líka: „Breyta má þessu með lögum“. Þetta þýðir einfaldlega að það þarf ekki að breyta stjórnarskrá til að breyta stöðu þjóðkirkjunnar, málið má afgreiða á Alþingi með venjulegri lagasetningu. Þess vegna spyr ég: Er þá ástæða til að láta það draga athygli og taka tíma frá málum sem aðeins verða leyst í stjórnarskrá? Eins og t.d. ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, um verk- og valdsvið forseta, um skarpari þrískiptingu valdsins svo eitthvað sé nefnt.

Mínar hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur gera minnihluta þingmanna eða tilteknum fjölda kjósenda kleift að senda mál til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðkirkjan er ágætt dæmi um mál sem þannig mætti leggja í dóm kjósenda, milliliðalaust og án þess að flækja því í önnur mál.

 

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til kvótakerfisins?

Kvótakerfið er ekki verkefni stjórnlagaþings, ekki frekar en t.d. einstök virkjanaleyfi. Ég styð eindregið að í stjórnarskrá verði kveðið skýrt á um að allar okkar auðlindir verði óskipt þjóðareign. Í anda þjóðfundar kæmu svo til viðbótar ákvæði um „sjálfbæra nýtingu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“. Jafnvel þessi „einfalda“ lagasetning er ekki einföld. Ég veit hvað ég hugsa þegar ég heyri orðið auðlind. Þú veist líka hvað þú hugsar þegar þú heyrir orðið auðlind, en það er alls ekki víst að við leggjum sömu merkingu í orðið. Það er því meðal verkefna stjórnlagaþings að skilgreina hugtakið auðlind. Stjórnlagaþingið þarf líka að skilgreina hugtakið þjóðareign, ég nota stundum orðið almannaeign.

Stjórnarskráin er grunnur annarrar löggjafar og segir til um stjórnskipan landsins. Hvorki virkjanaleyfi né úthlutun veiðiheimilda eiga að vera í stjórnarskrá, en í stjórnarskránni þurfa að vera skýrar forsendur fyrir því hvernig löggjafi og framkvæmdavald skulu haga lögum og reglum.

 

Ég vil ekki hugsa fyrir þig!

En ég vil vinna fyrir þig og með þér. Vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar betri, tækifæri til þess gefst á stjórnlagaþinginu á næsta ári.

Viljir þú heilindi og víðsýni og að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll, þá er ein leiðin að kjósa mig – setja 2974 efst á blað!

Þjóðkirkjan - blekking?

Hagsmuna hverra gæta þeir? Þeir sem vilja láta kosningar til stjórnlagaþings snúast um afstöðu frambjóðenda til þjóðkirkjunnar? Þeir vilja „sprengja“ stjórnlagaþingið áður en það kemur saman. Er dulið markmið þeirra að ekki náist sameiginleg niðurstaða um neitt það sem skiptir máli að breyta? Vilja þeir í raun nokkuð annað en óbreytta stjórnarskrá?

Ég vil breyta stjórnarskránni, ég vil t.d. fá inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og að þjóðin verði stjórnarskrárgjafi. Ég vil að við, þessir venjulegu lúðar, fáum raunverulega möguleika til að hafa áhrif á framgang mála.

Meðal þess sem ekki er sérstök ástæða til að eyða miklum tíma í á stjórnlagaþingi er þjóðkirkjan. Látum ákvæðin sem nú eru í stjórnarskránni standa óbreytt, þá er nefnilega hægt að taka málið fyrir á Alþingi og afgreiða með venjulegri lagasetningu. Setjum inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæði, í þá veru sem ég og fleiri leggjum til, og þá getum við tekist á um þjóðkirkju eður ei án þess að það standi öðrum málum fyrir þrifum. Ég er meira en til í þá umræðu.

En mér sýnist vera af nógu að taka fyrir stjórnlagaþing þó ekki verði tekin þar upp mál sem má leysa á öðrum vettvangi.

Þjóðin verði stjórnarskrárgjafi

Stjórnlagaþingið 2011 er einstakt í sögu þjóðarinnar. Meðal áherslumála minna er að í framtíðinni verði breytingar á stjórnarskrá alltaf í höndum stjórnlagaþings, breytingar á stjórnarskrá verði teknar úr höndum Alþingis. Tiltekinn fjöldi kjósenda geti með undirskriftum sínum boðað til stjórnlagaþings. Hið sama geti t.d. þriðjungur þingmanna gert. Þegar boðað hefur verið til stjórnlagaþings skal kjósa til þingsins í almennum kosningum svipað og nú er gert. Með þessu móti verður þjóðin stjórnarskrárgjafi.

Núverandi fyrirkomulag býður upp á mikinn freistnivanda fyrir Alþingismenn. Þeir eru bæði undir og yfir hvað stjórnarskrá varðar, það má segja að þeir hafi vald sitt frá stjórnarskránni og hafa jafnframt einir valdið til að breyta henni. Dæmin sanna að þetta fyrirkomulag gengur ekki upp. Á síðastliðnum 20 árum hefur Alþingi svæft um 30 tillögur til breytinga á stjórnarskrá. Þremur tillögum var vísað til ríkisstjórnar, þar lognuðust þær útaf. Aftur og aftur heykjast þingmenn á að takast á við breytingar á stjórnarskrá, þess vegna er ekki nema sjálfsagt að færa verkefnið þangað sem því verður sinnt, til þjóðarinnar.


Þjóðaratkvæði

Ákvæði um þjóðaratkvæði þarf að setja í stjórnarskrá, ákvæði sem kæmi í staðinn fyrir málskotsrétt forseta. Setja þarf ákvæði um hverja og hve marga þarf til að mál fari í þjóðaratkvæði.  Einnig þarf að skilgreina hvers konar mál má fara með í þjóðaratkvæði á grundvelli stjórnarskrár. Það eiga að vera mál sem snúast um grundvallaratriði frekar en t.d. mál er varða einstaka framkvæmdir.

Mál sem varða eign, yfirráð eða varanlegan nýtingarrétt lands eða auðlinda eiga erindi í þjóðaratkvæði. Hið sama gildir um alþjóðlega samninga og milliríkjasamninga sem hafa bein áhrif á íslenska löggjöf, dómsmeðferð eða skerða á einhvern hátt sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Fjárlög eru dæmi um mál sem ekki hentar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tiltekinn fjöldi Alþingismanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Hjá Dönum getur þriðjungur þingmanna skotið máli til þjóðarinnar, held að við ættum að vera á svipuðum slóðum. Tiltekinn fjöldi kjósenda þarf líka að geta skotið máli til þjóðaratkvæðagreiðslu, spurning hvort miða mætti við fimmtung (20%) kjósenda. Þriðja leiðin að þjóðaratkvæðagreiðslu gæti svo verið blanda af þessu tvennu.

Það er nauðsynlegt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur verði þannig að það verði raunverulegur möguleiki á að skjóta málum til þjóðarinnar. Hins vegar þarf að vera einhver þröskuldur, nógu hár til að litlar líkur séu á misnotkun.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Eiríkur Mörk Valsson

Höfundur

Eiríkur Mörk Valsson
Eiríkur Mörk Valsson

Bliki með áhuga á þjóðmálum, stórum sem smáum.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._01_1056788
  • ...emv_01
  • ...m81
  • ...m31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband