26.11.2010 | 09:51
Hvað vill hann þessi?
Á morgun göngum við til kosninga til Stjórnlagaþings, sem er einstakt í sögu þjóðarinnar. Mikilvægt er að á slíkt þing veljist sem breiðastur hópur fulltrúa, sem endurspeglar þau mismunandi viðhorf, sem uppi eru í þjóðfélagi okkar. Fólk með fjölbreytilegan bakgrunn, sem sér málin frá mismunandi sjónarhornum og er tilbúið til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu. Því meiri einhugur sem næst meðal fulltrúanna, því meiri líkur eru á að Alþingi samþykki nýja stjórnarskrá Stjórnlagaþingsins.
Ástæða þess að ég býð fram krafta mína til þessa þjóðþrifamáls, er einfaldlega sú að ég tel mig eiga fullt erindi á stjórnlagaþingið! Ég hef fylgst með þjóðmálum af miklum áhuga áratugum saman og ekki minnkaði sá áhugi minn við að verða þeirrar einstæðu gæfu aðnjótandi að sitja Þjóðfundinn 2009.
Ég bý á höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi, en hef búið nærri helming ævi minnar annars vegar úti á landi, í Hveragerði og á Ísafirði, hins vegar erlendis, í Danmörku. Búseta mín hefur þannig gert mér kleift að sjá þjóðmálin frá mismunandi sjónarhornum, en sú dýrmæta reynsla hefur eðlilega veitt mér víðtækari skilning á mismunandi viðhorfum.
Niðurstöður skoðanakönnunar um daginn sýna að áherslurnar sem ég lagði af stað með og held mig við eiga mikinn og góðan samhljóm með afstöðu almennings. Ég gef kost á mér sem fulltrúi fólksins, meginþorra þjóðarinnar, sem finnst sjálfsagt að almenningur hafi úrslitaáhrif á stjórnarfar landsins. Mikilsvert er að stjórnvöld séu sífellt minnt á af hverjum þau þiggja völdin sín.
Ég hef áður gert grein fyrir helstu áherslumálum mínum við endurritun stjórnarskrár Íslands og stikla því á stóru nú. Ég legg áherslu á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, þannig að tiltekinn fjöldi kjósenda , svo og minnihluti þingmanna, geti skotið málum til þjóðarinnar. Þjóðin skal vera stjórnarskrárgjafi, en Alþingi starfa í umboði hennar og vera sér ávallt meðvitað um þá skipan mála. Skerpa þarf skilin milli löggjafans og framkvæmdavaldsins, m.a. þannig að ráðherrar eigi ekki jafnframt sæti á Alþingi. Verulega þarf að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdavaldinu.
Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og skilgreina hlutverk þess betur en nú er raunin, m.a. með gegnsærri og lýðræðislegri vinnubrögðum við skipan dómara. Þá eru ótalin umhverfismálin og auðlindirnar. Ég styð eindregið ákvæði um þjóðareign á auðlindunum okkar í nýrri stjórnarskrá. Fyrsta skrefið í þá átt er að ná samstöðu um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign. Örðugt getur það orðið, en vitaskuld mögulegt ef viljinn er fyrir hendi.
Þann vilja hef ég! Viljann til að vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar verulega betri; nokkuð sem stjórnlagaþingið veitir okkur einstakt tækifæri til.
Ég vil vinna fyrir þig! Vinna af heilindum og víðsýni til að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll um langa framtíð. Ein leiðin að því marki er að kjósa mig setja 2974 efst á blað!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Eiríkur Mörk Valsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.