Forseti?

Sif Sigmarsdóttir spyr í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu (27. okt. 2010) um viðhorf til embættis forseta Íslands (http://vefblod.visir.is/index.php?s=4513&p=101547). Spurningunni beinir hún til frambjóðenda til stjórnlagaþings, hér svara ég fyrir mitt leyti.

 

Forseti Íslands kemur víða við samkvæmt stjórnarskránni, en hlutverk hans er samt býsna óljóst. Því þarf að breyta, m.a. vegna þess að verk- og valdsvið hans nær inn á öll þrjú svið ríkisvaldsins. Af minni hálfu liggur fyrir að skerpa þarf skil á milli valdsviðanna þriggja, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Þó ekki væri nema vegna þessa er nauðsynlegt að endurskoða ákvæðin um forseta. Annar kafli stjórnarskrárinnar fjallar um embætti forsetans, samkvæmt því sem þar kemur fram er næsta fátt í stjórnun landsins sem er embættinu óviðkomandi. Forseti er æðsti handhafi framkvæmdavaldsins og lög taka ekki gildi án atbeina forseta. Þá gerir hann samninga við erlend ríki og skipar embættismenn, þar á meðal dómendur. Samkvæmt þessari sömu stjórnarskrá framselur forseti oft vald sitt til ráðherra og þar með verða þeir óhóflega valdamiklir.

Enn um sinn vil ég forseta í hlutverki þjóðhöfðingja, þjóðkjörinn eins og nú. Verk- og valdsvið forsetans á að vera á sviði framkvæmdavaldsins, hvorki blanda honum í störf löggjafans né dómsvaldsins. Lög eiga að taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau, enginn nema þjóðin yfir löggjafanum. Forseti á ekki að stefna saman Alþingi og alls ekki að hafa umboð til að rjúfa þing. Hér verði þingræði og meðal hlutverka forseta verði „verkstjórn“ við myndun ríkisstjórnar, ríkisstjórnar sem skal njóta stuðnings meirihluta (eða hlutleysis) Alþingis. Forseti geti samt ekki sett ríkisstjórn af, en mætti hugsanlega hafa rétt til að setja slíka ákvörðun í þjóðaratkvæði. Annars yrði forseti áfram fyrst og fremst þjóðhöfðingi, kæmi fram sem slíkur gagnvart þjóðinni og öðrum þjóðum og fulltrúum þeirra, en áhrifalaus um daglegan rekstur samfélagsins.

Þeir eru margir sem vilja haga þessum málum á annan veg, vísa þá gjarnan til fyrirkomulags í t.d. BNA, Frakklandi og Finnlandi. Í mínum huga er alger aðskilnaður valdsviðanna þriggja forgangsverkefni núna. Gera til þess nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni, vinna þær inn í allt stjórnkerfið og sníða af vankantana sem koma í ljós í því ferli. Við þurfum að fá hreinar línur í verkaskiptingu og jafnræði með valdsviðunum þremur. Í jafnræðinu felst m.a. að styrkja Alþingi verulega gagnvart framkvæmdavaldinu.

Þegar verkaskiptingin er orðin ljós og um hana almenn samstaða, þá tel ég fulla ástæðu til að ræða af alvöru hugmyndir um að kjósa beinni kosningu handhafa framkvæmdavaldsins og fela þeim jafnframt hlutverk þjóðhöfðingja. Ég kýs helst að taka eitt skref í einu, en þau þurfa ekki að vera lítil.

 

Meðan á skrifunum stóð átti ég samtal við tvo góða og frjóa samfélagsrýna. Þeir eru báðir þeirrar skoðunar að leiðin mín sé sú „rétta“, að taka eitt skref í einu. En þeir eru líka báðir á þeirri skoðun að þess konar vinnubrögð henti ekki okkur Íslendingum. Ef boðið er upp á að taka eitt skref í einu, þá tökum við hugsanlega fyrsta skrefið og síðan ekki söguna meir. Þess vegna þurfi að taka þetta í einu stökki, annars komumst við ekki á leiðarenda. Ég er enn að melta orð þessara félaga, er bylting betri en þróun?


Þjóðfundur 2010

Ég bíð spenntur eftir þjóðfundinum 2010 og niðurstöðum hans. Var svo heppinn að lenda í úrtakinu fyrir þjóðfundinn 2009 og mætti auðvitað. Fundarformið var gott og andrúmsloftið einstaklega jákvætt og gefandi. Það kemur örugglega margt athyglisvert frá þjóðfundinum núna og fjölmargt sem stjórnlagaþing getur byggt vinnu sína á.

 

Á þjóðfundinum 2009 voru manngildin í hávegum höfð. Það sést vel á niðurstöðum fundarins undir yfirskriftinni„lífsgildi þjóðar“. Gildin efst á blaði þar voru:

o   heiðarleiki

o   virðing

o   réttlæti

o   jafnrétti

o   frelsi

o   kærleikur

o   ábyrgð

o   fjölskyldan

o   lýðræði

 

Þessi gildi eru mér mjög að skapi, mundi reyndar bæta auðmýkt á listann. Það á við um auðmýktina eins og mörg hinna gildanna að það er ekki hægt að setja um þau lög. Þessi gildi þurfum við að rækta með okkur, láta þau þroskast og dafna. Kenna börnum okkar að lifa og haga sér í samræmi við gildin sem okkur þykja svo eftirsóknarverð. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.

Það má setja lög um lýðræði, jafnrétti og frelsi. Þessi gildi eiga öll að skipa veglegan sess í stjórnarskrá landsins, um það hljóta flestir að vera sammála. Huglægu gildin sem ekki er hægt að setja í lög eiga svo að móta hvernig við byggjum áfram ofaná grundvallarlögin í stjórnarskránni.


Mönnun stjórnlagaþings

Það er mikilvægt að á stjórnlagaþing veljist sundurleitur hópur, en ekki sundurlyndur samt. Fólk með mismunandi bakgrunn og viðhorf, fólk sem sér málin frá mismunandi sjónarhornum og er tilbúið til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu. Með sameiginlegri niðurstöðu stjórnlagaþings eru meiri líkur á að Alþingi taki málið til meðferðar og samþykki breytingar á stjórnarskrá.


Af nógu að taka

Meðal þess sem þarf að ræða á stjórnlagaþingi er:

  o   ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur

  o   þjóðin sem stjórnarskrárgjafi

  o   skarpari skil á milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins

  o   efling Alþingis

  o   ákvæði um þjóðareign á auðlindum

  o   stjórnarskrá sem stenst tímans tönn

  o   íslensk tunga

  o   inngangur að stjórnarskrá þar sem „andi og meginreglur“ eru sett fram með skýrum hætti,

         í fallegum og aðgengilegum texta

 

Listinn gæti verið miklu lengri og ítarlegri, en ég læt þetta duga í bili. Á næstunni mun ég setja meira kjöt á beinin, skýra hvernig ég get hugsað mér að haga þessum málum öllum.


Mannamál

Að nýrri stjórnarskrá þarf að vera formáli eða inngangur þar sem „andi“ stjórnarskrárinnar er settur fram á mannamáli. Nokkurs konar yfirlýsing um hvernig samfélagi við viljum búa í.

Fengið verði vel ritfært og orðhagt fólk (rithöfundar, skáld, ljóðskáld) til að skrifa þessa yfirlýsingu. Rithópurinn fær í veganesti frá stjórnlagaþinginu (og Þjóðfundinum 2010) þann anda og þá þætti sem eru yfirgnæfandi í umræðum og vinnu þingsins. Þessum anda og þessum áherslum á hópurinn að skila í aðgengilegum, skýrum og fallegum texta.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Eiríkur Mörk Valsson

Höfundur

Eiríkur Mörk Valsson
Eiríkur Mörk Valsson

Bliki með áhuga á þjóðmálum, stórum sem smáum.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._01_1056788
  • ...emv_01
  • ...m81
  • ...m31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband